Spurt og Svarað

Almennt um hárkollur


Mig langar til að gefa hár til hárkollugerðar fyrir einstaklinga sem eru veikir? Tekur Hárkollugerðin við hári?

Hárkollugerðin er að svo stöddu ekki að taka við hári þar sem einstaklingum sem missa hárið er frekar bent á að nota hárkollu úr gervi hári þar sem þær eru afskaplega léttar og meðfærilegar. Það er mun meiri fyrirhöfn að eiga við hárkollu úr ekta hári. Hægt er að leggja góðum málefnum lið á svo margan hátt svo ekki þarf styttingu á hári til að gera góðverk. Þeir sem vilja samt sem áður klippa hárið er bent á að setja hárið í teygju ca. 3-4 cm fyrir neðan ræturnar til að halda hárinu saman. Ef Hárkollugerðin fer að sinna nýjum verkefnum vegna þjónustu við þá sem veikir eru þar sem hár vantar mun tilkynning þess efnis verða birt á Facebook síðu fyrirtækisins og heimasíðu.

Hver er munurinn á hárkollu úr gervihári og ektahári?

Gervi hárið er mjög létt og eðlilegt. Það sem er þess stærsti kostur er að ekkert þarf að hafa fyrir hárkollum úr gervi hári. Gervi hárið endist svipað og ekta hárið þegar það er búið að vinna það í hárkollu. Ekki má þó nota sléttujárn eða heitt krullujárn í gervi hárið þar sem það þolir hita upp að vissu marki og þá bráðnar það. Það tekur heldur ekki við lit. Ekki þarf að blása gervi hárið þar sem það er formað í það form sem þú óskar eftir þegar það er rakt eftir þvott og þornar hárkollan yfir nótt.

Athugið einnig að þegar staðið er við heitt grill eða opnaður er mjög heitur ofn að færa ykkur frá ofn hurðinni þegar hún er opnuð þar sem hitinn/heit gufan getur brætt hárið í hárkollunni.

Ekta hárið er eins og nafnið bendir til ekta hár. Það er hægt að lita og forma eftir smekk. Þess skal þó getið að það að halda hárkollu úr ekta hári við er meira en að segja það og er svo sannarlega ekki á hvers manns færi. Það að laga til hárið svo vel sé og halda henni góðri eftir þvott eða þegar hárkollan hefur aflagast t.d. eftir að hafa lent í rigningu kallar oft á nýja lagningu. Eins og áður kom fram þá er endingartími ekta og gervi hárs í hárkollu svipaður. Það getur tekið nokkuð langan tíma að komast upp á lag með að eiga við hár í hárkollu og er gott að hafa í huga að þar sem hárið eðlilega slitnar þá þurfa einstaklingar oft að klippa endana á hárkollunni og styttist hún þá eðlilega með tíð og tíma.

Við hjá Hárkollugerðinni ráðleggjum viðskiptavinum okkar að fá sér hárkollu úr gervihári.

Hvernig á að þvo hárkollur?

Þar sem Bergmann hárkollufyrirtækið framleiðir hárvörur sérstaklega ætlaðar hárkollum til að viðhalda ferskleika hársins hvort heldur er ekta hár eða gervihár, ráðleggjum við viðskiptavinum okkar eindregið að meðhöndla hárið með þessum vörum.

setja ylvolgt vatn í vask og blanda sjampói í vatnið. Ath. að vatnið sé ekki of heitt.
láta hárkolluna vera í vatninu í ca 5-10 mínútur, ath að öll hárkollan blotni vel.
skola hárkolluna vel, og setja hana aftur í ylvolgt vatn með balsami (hárnæringu) og láta liggja i ca 5-10 mín.
Þurrka mesta vatnið úr hárkollunni með því að strjúka vatnið úr með höndunum. Leggja hárkolluna á handklæði og vefja handklæðinu utan um hárkolluna, klípa handklæðið varlega – ekki vinda.
setja hárkolluna á hárkollustand og greiða hana raka í það form sem óskað er. Hárkollan er tilbúin til notkunar þegar hún þornar. Við ráðleggjum að nota grófa greiðu eða grófan bursta.
ef hárkollan er þurrkuð með hárblásara má alls ekki nota heitan blástur, og ráðleggjum við viðskiptavinum okkar að nota LIFE spray sem verndar hárið fyrir hita.
ATH. fyrir þá sem nota lím, hreinsið límið af fyrir þvott.

Ath. Við viljum benda viðskiptavinum Hárkollugerðarinnar á að við mikinn hita getur gervihár bráðnað. Það getur gerst t.d. ef staðið er of nálægt grilli eða ofni sem stilltur er á mikinn hita. Heit gufan sem myndast getur brætt hárið og því ráðleggjum við fólki að vera varkárt við þessar aðstæður.

Hvernig á að þvo hárkollur úr gervi hári?

Sjá þvottaleiðbeiningar

Hversu oft þarf að þvo hárkolluna?

Það fer allt eftir því hvað hárkollan er notuð mikið hversu oft þarf að þvo hana. Áætla má að þvo þurfi hana ca. á 4 – 5 vikna fresti án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Ef hárkollan er notuð á hverjum degi þá þarf að þvo hana oftar en hjá einstakling sem notar hárkolluna einungis hluta úr degi eða ekki alla daga vikunnar. Við finnum bæði á grunninum og þegar hárið fer að verða matt og óþjált þá er komin tími á þvott.

Við ráðleggum að nota sjampó og næringu sem ætlað er fyrir gervi hár í gervi hárs hárkollur og sjampó og næringu fyrir ekta hár fyrir ekta hárs hárkollur.

Hvað endast hárkollur lengi?

Hárkollur endast misjafnlega lengi allt eftir því hvernig farið er með þær og hversu mikið þær eru notaðar. Sumir einstaklingar nota hárkollu 18 klst á sólarhring alla daga ársins, aðrir einstaklingar nota hana einungis þegar farið er út á meðal fólks, til vinnu eða hluta úr degi. Ekki er óalgengt að einstaklingar sem nota hárkollu alla daga ársins allan daginn þurfi 2-3 stk yfir árið. Ekki er ráðlegt að sofa með hárkollu.

Hvernig er best að geyma hárkolluna?

Best er að geyma hárkolluna á korkstandi svo það lofti um hana og betur fari um hana. Einnig er gott að láta hana þorna á standi eftir þvott.

Þarf að líma hárkolluna á höfuðið?

Ekki þarf að líma hárkolluna á kollinn. Ef hárið er alveg farið af kollinum þá situr hárkollan nú í flestum tilfellum mjög vel þar sem hársvörðurinn er mattari en hárið. Aftur á móti er hægt að nota tape sem ætlað er fyrir hárkollur ef þurfa þykir. Ef verið er að nota hárkollu yfir hár þá getur verið gott að spenna hárkolluna við hárið til að festa hana til öryggis.

Ef að hárkollan er of stór eða of lítil hvað geri ég?

Aftan á hárkollunni inni í grunninum eru flipar sem hægt er að stilla til að víkka eða þrengja hárkolluna. Mjög algengt er að það sé franskur rennilás. Áríðandi er að stilla hana jafnt báðu megin svo hárkollan skekkist ekki á kollinum. Með tíð og tíma má gera ráð fyrir að grunnur hárkollunnar gefi eftir og getur þá verið gott að þrengja hana. Ef hárkollan er þrengd of mikið þá getur hún smokrast af kollinum.

Er hárkolla og hártoppur það sama?

Hárkolla hylur allt höfuðið en hártoppur hylur einungis svæðið ofan á kollinum. Annað hvort þarf að líma eða festa með klemmum/spennum hártoppinn. Hárkollan getur setið á kollinum án líms/taps eða spenna ef hármissir er mikill eða algjör.

Upplýsist gervi hárið í sól?

Verður mér ekki mjög heitt á höfðinu með hárkolluna?

Einstaklingum getur vissulega orðið heitt á höfðinu með hárkolluna. Það er gott að hafa í huga að hitatap líkamans er út í gegnum kollinn svo þegar einstaklingi er heitt eða svitnar er hárkollunni oft kennt um. Hárkollurnar sjálfar eru þannig unnar að það loftar einstaklega vel um þær svo okkur hér hjá Hárkollugerðinni finnst ekki alveg sanngjarnt að hárkollunni sé kennt um þegar einstakling er mjög heitt með hárkolluna. Það er þó gott að hafa í huga að hjá einstaklingum sem eru í lyfjameðferð valda lyfin oft hita og kulda sveiflum í líkamanum. Gott getur verið að hvíla sig á notkun hárkollunnar þegar hita kóf gengur yfir og nota létt höfuðfat.

Sést ekki að ég nota hárkollu?

Hárkollur eru orðnar ótrúlega eðlilegar og ef hárkollan er notuð rétt ætti engin að þurfa sjá að um hárkollu er að ræða.

Má ég fara í sund eða heita pottinn með hárkolluna?

Ekki er ráðlagt að fara með hárkolluna í sund bæði það að klórinn fer mjög illa með hárið og einnig að gufan í heita pottinum eyðileggur hárið. Sundhetta er mun betri kostur, Einnig er gott að hafa í huga að hársvörðurinn getur verið viðkvæmur og getur klórinn í vatninu verið of ertandi. –

Ég er að missa hárið en er þó ekki í lyfjameðferð. Hvers vegna?

Það er ekki alltaf hægt að útskýra af hvers völdum hármissir er, það þynnist eða blettaskalli myndast. Oft er talað um að um sjálfsofnæmi sé að ræða. Við ráðleggjum öllum sem verða varir við ofangreindar breytingar á hársverði að leita til læknis t.d. húðsjúkdómalæknis, til að fá greiningu á orsök vandans og úrlausn.

Hvernig á að þvo hárkollur?


Hvað þarf ég að bíða lengi eftir að fá hárkolluna afhenta?

Ef hárkollan er til á lager þegar þú kemur að skoða og þú ert búin að gera upp hug þinn þá færðu hana afhenta strax. Annars er hárkollan pöntuð og ætti það ekki að taka lengri tíma en 4-7 virka daga svo framarlega að liturinn sé fáanleg hjá erlenda birgjanum.

EFtir að lyfjameðferð hefst


Hversu lengi eftir að ég byrja í lyfjameðferð fer hárið og gerist það hratt?

Það er ekki óalgengt að 15-18 dögum eftir lyfjameðferð fari hárið að fara og fer það yfirleitt hratt eða á 3 dögum. Þar sem hárið fer hratt koma oft eymsli í hársvörðinn sem ganga fljótt yfir þegar hárið er farið. Þetta er ekkert sem þarf að hræðast en ástæðan er sú að hársekkirnir verða opnir þegar hárið fer að fara og meðan þeir eru að lokast aftur eru oft eymsli. Við ráðleggum að þegar komið er að hármissis tímabilinu rakið hárið af frekar en að halda í það. Það er óþægileg tilfinning fyrir þann einstakling sem er að missa hárið að sjá laust hár á fötunum ykkar, á koddanum, í sturtunni o.s.frv. Skiljið stutta brodda eftir en ekki fara með rakhníf að hársverðinum þar sem hann er aumur. Gott er að bera t.d. Aloa Vera kremið í hársvörðinn meðan hann er aumur, það er bæði kælandi og græðandi.

Hvað varir hármissirinn lengi hjá einstaklingum í lyfjameðferð?

Best er að spyrja hjúkrunarteymið sem fylgir þér í gegnum lyfjagjafaferlið að því, þar sem það eru viss lyf sem valda hármissinum svo það fer eftir lyfjagjöfinni hversu lengi hármissirinn varir.

Fæ ég styrk til hárkollu kaupa ef ég er að missa hárið??

Varðandi styrkveitingar til kaupa á hárkollu þegar um hármissi er að ræða þá fást upplýsingar varðandi þær afgreiðslur hjá Hjálpartækjamiðstöðinni sem er hluti af Sjúkratryggingum Íslands. Síminn þar er 5150100. Þess skal þó getið að læknir þarf að fylla út styrk umsókn og senda til Hjálpartækjamiðstöðvarinnar. Veitum við fúslega frekari upplýsingar varðandi greiðslufyrirkomulag fyrir einstaklinga sem versla hárkollur og höfuðföt hjá Hárkollugerðinni í síma 511 5222.